RVK Bruggfélag tilkynnir flutning bruggstofu í Tónabíó

Vandað ehf. var stofnað á bjórdaginn 1. mars árið 2017 og brugghúsið í Skipholti 31 hóf starfsemi 15 mánuðum síðar. Þar hefur frá upphafi verið rekin lítil bruggstofa hvar gestir geta komið við og smakkað á vörum RVK Bruggfélags, ásamt því að fræðast um starfsemi brugghússins og bjórsögu Íslands.
Í dag, á sólskinsríkum bjórdegi 6 árum síðar, undirrituðum við samning um að færa bruggstofuna okkar yfir í stærra húsnæði í gamla Tónabíói í Skipholti 33, eða Vinabæ eins og það hét sl. 30 ár. Þar verður mun rýmra um okkur; pláss fyrir fleiri gesti, meira úrval af bjór og öðrum góðum veigum, þar verður bjórbúð með vörur félagsins, auk þess sem við ætlum að bjóða upp á kaffi og létt fæði alla daga. Framkvæmdir eru að hefjast og stefnum við á að opna nýju bruggstofuna í Tónabíói á næstu vikum.
Á myndinni handsala Sigurður P. Snorrason meðstofnandi og framkvæmdastjóri Vandaðs og Ingi Helgason hjá LX fasteignum samstarf félaganna í Tónabíói.